Lög GFF

Lög samtakanna í núverandi formi voru samþykkt á aðalfundi GFF 28.apríl 2005.

1. gr.

Heiti samtakanna er GRÓÐUR FYRIR FÓLK Í LANDNÁMI INGÓLFS, skammstafað GFF.

2. gr.
Markmið samtakanna er að stöðva gróður- og jarðvegseyðingu í Landnámi Ingólfs og styrkja vistkerfi svæðisins með því að auka og bæta þar gróður. Samtökin vinna þannig að endurheimt glataðra landgæða og því að skapa vistlegra umhverfi fyrir þann stóra hluta þjóðarinnar sem á svæðinu býr.

3. gr.
Markmiði sínu hyggjast samtökin ná með eigin aðgerðum og með því að virkja alla þá aðila sem vilja leggja málefninu lið, svo sem einstaklinga, félög, fyrirtæki, stofnanir, ríki og sveitarfélög.

4. gr.
Félagar að GFF geta verið einstaklingar, fyrirtæki, félög og stofnanir.

5. gr.
Aðalfund samtakanna skal halda fyrir lok aprílmánaðar ár hvert. Til aðalfundar skal boða með tryggum hætti með viku fyrirvara og telst hann þá löglegur. Afl atkvæða ræður úrslitum á aðalfundi og reiknast félögum, fyrirtækjum og stofnunum eitt atkvæði jafnt sem einstaklingum.

6. gr.
Dagskrá aðalfundar skal vera þessi:
1. Skýrsla stjórnar
2. Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga
3. Umræður um skýrslu og reikninga
4. Ákvörðun árgjalds yfirstandandi árs
5. Lagabreytingar
6. Kosning stjórnar og endurskoðenda fyrir næsta starfsár
7. Önnur mál

7. gr.
Rétt til að greiða atkvæði á aðalfundi samtakanna hafa allir félagsmenn sem greitt hafa árgjald liðins árs.

8. gr.
Lögum samtakanna verður aðeins breytt á aðalfundi þeirra. Tillögum til lagabreytinga skal skila 14 dögum fyrir aðalfund til stjórnar og skal stjórn geta þess í fundarboði ef lagabreyting hefur komið fram. Hljóti lagabreytingartillaga samþykki 2/3 hluta fundarmanna telst hún samþykkt.

9. gr.
Stjórn samtakanna skipa 9 menn. Formaður er kjörinn á aðalfundi en að öðru leyti skiptir stjórnin sjálf með sér verkum. Hún skal kjörin til eins árs í senn. Stjórnin getur skipað fag- og starfsnefndir sem vinna með stjórn að framgangi markmiða samtakanna.

10. gr.
Stjórn samtakanna er ábyrg fyrir fjárreiðum og skuldbindingum þeirra og tekur stefnumarkandi ákvarðanir um starfsemina.

11. gr.
Stjórnarfundi skal boða með tryggum hætti með 7 daga fyrirvara. Stjórnarfundur er ályktunarhæfur er minnst 5 stjórnarmenn sækja fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Ef atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns.

12. gr.
Til þess að slíta samtökum þessum þarf samþykki 2/3 fundarmanna á löglegum aðalfundi þeirra. Tekur aðalfundur ákvörðun með sama meirihluta um ráðstöfun eigna samtakanna.© 2014 Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs | kt. 500497-2979 | Laugavegi 13 | 511 1930 | gff@gff.is Vefumsjón