Jarðgerð á Suðurnesjum

Suðurnesin eru ekki frjósamasti landshlutinn frá náttúrunnar hendi og því nærtækt að reyna að finna hagkvæmar leiðir til að bæta þar úr. Á Vatnsleysuströnd er rekið hænsnabú þaðan sem kemur mikið af eggjum en þó miklu meira af hænsnaskít. Enginn þarf að efast um að í hænsnaskít er fólginn mikill frjómáttur fyrir gróðurríkið en efnið er sterklega lyktandi eins og það kemur af skepnunni og því fylgja talsverð óþrif. GFF hafði áhuga á að reyna að nýta áburðareiginleika þessa efnis á Suðurnesjum án þess þó að fólk þyrfti að vaða forina upp fyrir ökkla. Samtökin leituðu því til rekstraraðila Nesbúegg ehf og óskuðu eftir samstarfi um að þróa jarðgerðarferli til að gera efnið aðgengilegt og aðlaðandi til uppgræðslu og ræktunar á Suðurnesjum.
Framkvæmdasvið Reykjanesbæjar slóst í hópinn við undirbúning og framkvæmd verkefnisins enda var bærinn áhugasamur um að fá gróðurmold til notkunar í víðtæku ræktunarstarfi sem fram fer á hans vegum. Hinn verklegi þáttur hófst í byrjun árs 2010 og hafði þá verið samið við Gámaþjónustuna hf um afnot af sérhönnuðu tæki, s.k. múgasnerli. Myndirnar hér á eftir segja þessa sögu með sínum hætti fram í lok árs 2012.
Hænsnaskítur fellur til í miklu magni og oft er hann ansi þunnfljótandi og erfiður í meðförum.
En sumt af honum er líka þurrari og auðveldari í meðförum.
Annar úrgangsflokkur sem kemur við sögu í jarðgerð á Suðurnesjum. Nauðsynlegt er að blanda trjágreinum saman við hænsnaskítinn til að hægt sé að jarðgera með góðu móti. Augljóst er þó hér að gera þarf ráðstafanir til að ekki berist með honum aðskotadrasl.
Trjágreinarnar eru þó ekki nothæfar fyrr en búið er að kurla þær.
Starfsmaður Nesbúegg ehf losar hænsnaskít........
.... og blandar saman við trjákurl. Myndir frá 7.okt 2011.
Patterson svæðið í Njarðvík, sem er gamall herflugvöllur, var alltaf staðurinn sem GFF hafði augastað á fyrir jarðgerð á Suðurnesjum.
Mynd frá 19.jan 2010 þegar Gámaþjónustan hf kom með múgasnerilinn suður eftir.
Ingþór starfsmaður Gámaþjónustunnar leiðbeinir mönnum um notkun á múgasnerlinum 19.jan 2010.
Innan tíðar fóru hjólin að snúast á jarðgerðarstað, mynd frá 12.mars 2010.
Trjákurlið er sett ofan á múgana með traktorsskóflu.
Múgasnerillinn sér um að blanda efnunum saman og lofta massann í leiðinni.
Hitamyndun er aðalsmerki velheppnaðrar jarðgerðar. Hér má sjá hraukana á Patterson í byrjun desember 2010.
Mynd frá því í maí 2012. Hér er sá armi sílamávur mættur til að njóta ylsins af jarðgerðarmassanum.
Mynd frá 5.okt 2012 og sýnir massa sem stendur nánast fullbúinn og bíður notkunar árið 2013.


© 2014 Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs | kt. 500497-2979 | Laugavegi 13 | 511 1930 | gff@gff.is Vefumsjón