Stofnun samtakanna

Samtökin Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs voru stofnuð 8. apríl 1997. Helsti hvatamaður að stofnun samtakanna var Ingvi Þorsteinsson náttúrufræðingur en þeir Gunnar G. Schram lagaprófessor og Valdimar Jóhannesson blaðamaður komu einnig við sögu. Að baki stofnun samtakanna lá sú skoðun að Landnám Ingólfs hefði orðið að ýmsu leyti útundan í áratuga viðleitni til landgræðslu á Íslandi. Bent var á að í þessum landshluta þar sem um 70 % landsmanna býr og þar sem gróður á undir högg að sækja í gjóskublöndnum jarðvegi, þyrfti að taka betur á en fram að því var raunin. Eins og nafn samtakanna ber með sér er hinn mannlegi þáttur jafnan ofarlega á baugi í starfi þeirra og sá skilningur lagður til grundvallar að gróður sé mannfólkinu til yndisauka.

Á stofnfundi samtakanna þann 8.apríl 1997 mættu um 200 manns. Ingvi Þorsteinsson var kjörinn formaður á stofnfundi og gegndi því embætti til vorsins 2001 þegar Sveinn Aðalsteinsson skólameistari Garðyrkjuskóla ríkisins tók við. Þórður Ólafsson skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu tók við af Sveini árið 2002 og gegndi formennsku til ársins 2004 þegar Friðrik Pálsson ferðamálafrömuður tók við og var fram til 2006 þegar Ólafur Örn Haraldsson fv alþingismaður tók við og gegndi formennsku til ársins 2011 er Hjálmar Árnason fv alþingismaður tók við.
Frá aðalfundi 2013 hefur Hjálmar Hjálmarsson leikari og fyrrverandi bæjarfulltrúi í Kópavogi gegnt formannsembætti stjórnar GFF.

© 2014 Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs | kt. 500497-2979 | Laugavegi 13 | 511 1930 | gff@gff.is Vefumsjón