Velkomin á vefsíðu GFF

Efling gróðurlendis í Landnámi Ingólfs og endurheimt glataðra landgæða er meginviðfangsefni samtakanna Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs (GFF).

Með því að nýta lífræn úrgangsefni sem falla til frá þéttbýlistengdri starfsemi á svæðinu til að græða upp örfoka land fær hugtakið sjálfbær þróun jarðtengingu og raunverulega merkingu.
Tilkynningar

Aðalfundur GFF 2016
Aðalfundur GFF 2016 var haldinn í Hafnarborg í Hafnarfirði 3.maí s.l.

Á dagskrá voru venjuleg aðalfundarstörf en meginatriði fundarins var undirritun samnings GFF og Hafnarfjarðarbæjar um starfrækslu vistvangs á landsvæði í lögsögu og eigu bæjarins suður í Krýsuvík. Helga Ingólfsdóttir formaður Umhverfis- og framkvæmdaráðs Hafnarfjarðar undirritaði samninginn fyrir hönd bæjarins og Björn Guðbrandur Jónsson framkvæmdastjóri GFF undirritaði fyrir hönd GFF. Um vistvang hefur verið ritað í fréttabréf GFF undanfarin ár og einnig hafa birst blaðagreinar um efnið. Hér á vefsíðunni má finna sérstaka undirsíðu helgaða efninu.


Fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar og GFF handsala samning um vistvang í landi bæjarins.

Ársreikningur GFF fyrir árið 2015 var lagður fram og samþykktur (sjá pdf skjal undir flipanum Um GFF.) Farið var yfir helstu verkefni ársins 2015 þar sem hæst bar skólastarf með 12 skólum á höfuðborgarsvæðinu, uppgræðslu gamallar námu vestan í Sveifluhálsi með hrossataði úr Garðabæ og uppgræðslu austan í hálsinum með hrossataði úr Hafnarfirði. Þá var unnið að undirbúningi að vistvangi og hugtakið kynnt fyrir hlutaðeigandi aðilum.

Breytingar urðu á stjórn GFF aðalfundinum. Katrín Fjeldsted sem setið hefur í stjórn samtakanna frá aðalfundi vorið 2008 gaf ekki kost á sér áfram og í hennar stað var kjörin Tinna Gunnlaugsdóttir leikkona og fyrrverandi Þjóðleikhússtjóri. GFF þakkar Katrínu fyrir ánægjulegt samstarf og býður Tinnu velkomna í hina glaðbeittu stjórn samtakanna.

Aðalfundur GFF var að venju öllum opinn enda eiga þangað erindi allir þeir sem láta sig varða sjálfbæra þróun, hvort sem er í heiminum almennt eða á heimaslóð.

Eins og ævinlega var áskorun Ríó ráðstefnunnar frá 1992, "Think globally, act locally!" leiðarstef aðalfundar GFF.© 2014 Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs | kt. 500497-2979 | Laugavegi 13 | 511 1930 | gff@gff.is Vefumsjón