Tilgangur og uppgræðsluaðferðir

Megintilgangurinn með uppgræðslu GFF er að koma af stað gróðurframvindu á örfoka landi og koma í veg fyrir að upprunalegur gróður og undirliggjandi jarðvegur verði eyðingu að bráð. Grunnreglan er sú að treysta á þau áhrif sem hin lífrænu áburðarefni hafa í för með sér. Þau áhrif geta hins vegar látið á sér standa fyrst í stað, þannig ef nauðsyn þykir að treysta skammtímaáhrif er gripið til smáskammta af auðleysanlegum tilbúnum áburði.

Misjafnt er hvort notað er fræ til að flýta myndun gróðurþekju. Á landi þar sem búast má við að talsvert af fræi liggi í dvala í jarðveginum verður áburðurinn gjarna vakning og upprunalegi gróðurinn sprettur fram sem aldrei fyrr. Sums staðar er litlu fræi til að dreifa í jarðveginum eða jarðvegur ekki til staðar og í þeim tilvikum er sáð grasfræi sem GFF fær frá Landgræðslunni. Í fræblöndunni eru fræ þriggja grastegunda, túnvinguls, vallarfoxgrass og rýgresis, en sú síðastnefnda er einær og er ríkjandi í beðinu fyrsta árið. Af vexti rýgresisins verður til umtalsverður lífmassi strax á fyrsta ári sem nær að hlífa yfirborðinu fyrir vindrofi. Slíkt umhverfi skapar ný og betri vaxtarskilyrði fyrir aðrar tegundir og stöðvar jarðvegs- og gróðureyðingu, þar sem hún á sér stað.

Hugmyndin að baki þessarar aðferðar GFF er sú að ef uppgræðslan heppnast vel strax á fyrsta ári, þurfi ekki að endurtaka áburðargjöf. Þá er oft gert ráð fyrir því að grastegundirnar sem sáð var upphaflega hverfi smám saman úr gróðursverðinum og hinar eiginlegu staðartegundir taki við. Á mörgum svæðanna hefur verið plantað trjám og runnum og víða hefur mosi tekið yfir uppgræðslusvæði þar sem áburðargjöf hefur ekki verið endurtekin.

© 2014 Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs | kt. 500497-2979 | Laugavegi 13 | 511 1930 | gff@gff.is Vefumsjón