Flensborg

Samstarf GFF og Flensborgar má rekja aftur til ársins 2001. Þá var fyrst farið með nemendur til Krýsuvíkur á í því skyni að græða þar upp land undir handleiðslu GFF. Krýsuvík er í landi og í lögsögu Hafnarfjarðarbæjar og því við hæfi að æskulýður bæjarins leggi þar hönd á plóg.
Leiðangrar nemenda og úrvinnsla þeirra er hluti af námskeiðinu Lífsleikni sem er skyldufag í framhaldsskólum. Flestir nemendur Flensborgar taka Lífsleikni strax á fyrsta ári. Á pappírnum ættu sem sagt allir nemendur skólans síðan 2001 að hafa farið a.m.k. einn uppgræðsluleiðangur til Krýsuvíkur.
Síðan haustið 2008 hefur sá háttur verið hafður á að farið er með nemendur í 12 manna hópum og þegar suður eftir er komið er nemendum skipt í 4 manna hópa sem vinna saman á vettvangi. Í vorleiðöngrum er lögð áhersla á það sem GFF kallar jarðefli, þ.e. landinu eru færð næringarefni sem í langflestum tilfellum eru af lífrænum toga, hrossatað, kjötmjöl, molta eða þ.u.l. Fræjum er sáð og síðast en ekki síst eru græðursettar trjáplöntum, aðallega birki. Á haustin er meira lagt upp úr vöktun, þ.e. að hóparnir mæla og meta lifun, vöxt og ástand trjáplantna sem þegar hafa verið settar niður. Unnið er samkvæmt aðferðum verkefnisins LAND-NÁM sem lýst er annars staðar á vefsíðunni.
Landið sem Flensborgarar hafa unnið á hefur tekið stakkaskiptum síðan að afskipti þeirra af því hófust. Um það vitna þær myndir sem hér má sjá.
Frá fyrsta vorleiðangri nemenda Flensborgarskólans með GFF til Krýsuvíkur í maí 2002.
Frá síðasta haustleiðangri Flensborgara til Krýsuvíkur í sept 2012.
Veðurguðirnir eru ekki alltaf hliðhollir eins og þessi mynd frá sept 2009 ber með sér.
Þessi hópur frá sept 2010 fékk sól og blíðu.
Frá vorleiðangri 2006 þar sem unnið var á austurenda svæðisins.
Mynd tekin í haustleiðangri 2008 og þá hefur landið í austurendanum umbreyst talsvert.


© 2014 Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs | kt. 500497-2979 | Laugavegi 13 | 511 1930 | gff@gff.is Vefumsjón